Framkvæmdir
og aðgerðir

Haldið verður áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjól­reiða þannig að Reykja­vík verði góð hjóla­borg. Áfram­haldandi uppbygging verður á hjóla­leiðum og hjóla­stæðum ásamt því að farið verður í fjöl­breyttar, mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla.

Við nánari útfærslu fram­kvæmda og forgangs­röðun þeirra verður lögð áhersla á samráð við íbúa og hagsmuna­aðila eins og samtök hjól­reiða­manna og fleiri. Í þessum kafla eru settar fram þær aðgerðir sem Reykja­víkur­borg vill að komi til fram­kvæmda á tíma­bilinu 2015–2020. Fram­kvæmda­áætlun er endur­skoðuð á 3 ára fresti.

Uppbygging
hjólaleiða

Á hverju ári er unnið samkvæmt fram­kvæmda­áætlun um uppbyggingu hjól­reiða­kerfis Reykja­víkur. Hér fyrir neðan má sjá uppbyggingu hjól­reiða­kerfisins sem átti sér stað á árunum 2006–2014, þ.e. fyrir og á tíma­bili hjól­reiða­áætlunar­innar frá 2010.

Á tíma­bilinu 2015–2020 er stefnt að uppbyggingu á um 30 km af hjóla­leiðum. Lykil­framkvæmdum sem stefnt er að á tíma­bilinu er lýst stutt­lega hér fyrir neðan og einnig má sjá heildarkort yfir framkvæmdir við hjóla­leiðir sem stefnt er að á tímabilinu.

Lögð verður sér­stök áhersla á góðar og betrum­bættar þveranir hjóla­leiða yfir gatna­mót. Í því til­liti verður gerð greining á mögu­legum valkostum þverana, þ.e. undir­göng, brú eða í plani, meðal annars m.t.t. öryggis­tilfinningar notenda á stígum.

Greiningin tengist mark­miði um aukna öryggis­tilfinningu og jákvætt viðhorf fólks til hjól­reiða. Í ljósi þess að hjól­andi vegfarandi er mun fljótari í gegnum gatnamót en gang­andi vegfarandi þarf samhliða að skoða hvort og hvar æski­legt er að setja sérstakar þveranir fyrir hjól t.d. á stórum gatna­mótum þar sem gang­brautarljós eru þrepa­skipt.

 • Hjólastígar og hjóla- og göngustígar

Lykilframkvæmdir

 • Bústaðavegur — kort

  Bústaðavegur
  Heildarlengd: 4,7 km

 • Miklabraut og Hringbraut — kort

  Miklabraut & Hringbraut
  Heildarlengd: 5 km

 • Elliðaárdalur – kort

  Elliðaárdalur
  Heildarlengd: 2 km

 • Kringlumýrabraut – kort

  Kringlumýrarbraut
  Heildarlengd: 2,3 km

 • Suðurlandsbraut – kort

  Suðurlandsbraut

 • Auk þessara verkefna verður unnið að uppbygg­ingu á mörgum styttri hjóla­leiðum, m.a. í Ártúns­holti, á Sund­lauga­vegi, Snorra­braut, Suður­götu, Háaleitis­braut, Grensás­vegi, Geirs­götu og Mýrar­götu.

 

Áhersla á góðar hjóla­leiðir við hönnun nýrra gatna og svæða, þar sem þarfir hjól­andi verða ávallt í fyrir­rúmi, í samræmi við stefnu um vist­vænar samgöngur og hjól­reiðar í Aðal­skipu­lagi Reykja­víkur 2010–2030. Þetta á t.d. við um Hlíðar­enda og Voga­byggð.

Forgangs­röðun verkefna verður einnig ávallt háð samþættum aðgerðum eins og verkefnum með Vega­gerðinni og Orku­veitunni. Gangi þessar fram­kvæmdir eftir mun hjóla­leiða­kerfið í Reykja­vík árið 2020 verða mun þéttara en í dag, með samfelldum, greiðum og öruggum hjóla­leiðum.

Framtíðar­sýn Reykja­víkur­borgar varðandi áfram­haldandi vinnu við hjóla­leiðir til 2030 snýr að því að leggja áherslu á að ljúka fyrir­sjáanlegri samfellu við gerð stofn­stíga­kerfis í borginni í samræmi við stefnu Aðalskipu­lags Reykja­víkur 2010-2030.

Með fram­fylgd Hjól­reiða­áætlunar verður uppbygging þess hjóla­leiða­kerfis sem sýnt er í Aðalskipu­lagi Reykja­víkur 2010–2030 vel á veg komin árið 2020.

Við uppbyggingu hjóla­leiða er farið eftir hönnunar­leið­beiningum og viðmiðum sem tryggja samræmi í kerfinu og að það sé eins skil­virkt, öruggt og þægilegt og mögulegt er.

Hönnunar­leiðbein­ingarnar Hönnun fyrir reið­hjól voru unnar fyrir Reykjavíkur­borg og gefnar út í júlí 2012. Þær hönnunar­leið­beiningar verða uppfærðar á tíma­bilinu með hlið­sjón af þeirri reynslu sem nú er komin meðal almennra notenda, starfs­manna Reykja­víkur­borgar og samtaka hjól­reiða­manna.

Fjölgun
hjólastæða

Með Hjól­reiða­áætlun 2015–2020 er stefnt að því að uppfylla markmið Aðal­skipu­lags Reykja­víkur 2010–2030 um heildar­fjölda hjóla­stæða við grunn­skóla. Í dag uppfylla fimm skólar þetta mark­mið, það eru Hamra­skóli, Fossvogs­skóli, Keldu­skóli-Korpa, Klébergs­skóli og Voga­skóli.

Til að uppfylla mark­mið um hjóla­stæði fyrir 20% nemenda og starfs­fólks stefnir Reykja­víkur­borg að því að setja upp um 1.500 hjóla­stæði við grunns­kólana á tíma­bilinu til viðbótar við þau 1.700 hjóla­stæði sem eru til staðar í dag. Auk þess verði hjóla­stæðum við framhalds­skóla, sunds­taði, íþrótta­mann­virki og í miðbænum fjölgað verulega.

Hjólastæði við grunn­skóla Reykja­víkur
Í úttekt sem fram­kvæmd var árið 2014 á hjóla­stæðum við grunn­skóla Reykja­víkur segir:

„Samkvæmt árlegri ferða­könnun Umhverfis- og samgöngu­sviðs Reykja­víkur­borgar, hefur börnum sem hjóla í skólann fjölgað úr 6% í 9% milli áranna 2009–2010. Því er lagt til að fjöldi hjóla­grinda verði á bilinu 10%–40% af heildar­fjölda nemenda og starfs­fólks hvers skóla, hluti stæðanna á að vera yfir­byggður og aldrei færri en helmingur af lágmarks­fjölda (10%).“

Í Aðal­skipu­lagi Reykja­víkur 2010–2030 er sett fram eftir­farandi stefna um hjóla­stæði við skóla:

„Hjólastæði við grunn­skóla, framhalds­skóla og háskóla fyrir a.m.k. 20% nemenda og starfs­manna. Helmingur stæða skal vera yfir­byggður.“


Einnig verður hafin vinna við að uppfylla það mark­mið Aðalskipu­lags Reykja­víkur að helmingur allra hjóla­stæða verði yfir­byggður.

Reykjavíkur­borg stefnir á að gera samsvarandi úttekt á hjóla­stæðum við fram­halds­skóla borgar­innar og hefja vinnu í átt að mark­miði Aðal­skipu­lagsins hvað þá varðar. Auk þess verða gerðar úttektir á hjóla­stæðum við leik­skóla og þau frístunda­heimili og félags­mið­stöðvar sem eru stað­settar utan grunn­skóla­lóða.

Metið verður hvað sé æskilegur fjöldi hjóla­stæða þar, sbr. mælan­legu mark­miðin fyrir grunn­skólana, og hvað vanti upp á til að ná því.

Hjólastæði við sund­staði, íþrótta­mann­virki og í miðbænum
Reykjavíkurborg hefur gert úttekt á hjóla­stæðum við sund­staði borgar­innar og við nokkra lykil­staði í miðbænum. Við alla sund­staðina nema einn eru einhver hjóla­stæði í dag, en lagt er til að bætt verði við hjóla­stæðum við alla sund­staðina. Í miðbænum er lagt til að bæta við nýjum hjóla­stæðum á fimm stöðum og að sett verði upp færanleg hjóla­stæði á sumar­götum.

Samtals eru þetta 13 staðir, við sund­staði og í miðbænum, sem lagt er til að sett verði viðbótar hjóla­stæði. Stefnt er að því að þær fram­kvæmdir verði langt komnar fyrir 2020. Einnig er stefnt á að gera samsvarandi úttekt við íþrótta­mannvirki.

3-4-rammi

Auknar hjólareiðar
barna og unglinga

Farið verði í átaks­verkefni til að fjölga þeim sem hjóla í skóla og frí­stunda­starf. Umferðar­slangan (e. Traffic Snake Game) eða aðrar viður­kenndar leiðir til að hvetja grunn­skóla­nema til virkra samgangna verði innleiddar í fimm til tíu grunn­skóla Reykja­víkur­borgar haustið 2016 samhliða fjölgun hjólastæða. Árið 2020 verði allir grunn­skólar Reykja­víkur orðnir þátt­takendur í átaks­verkefninu og það endur­tekið á hverju hausti.

Skóla- og frístunda­svið, leik­skólar, grunn­skólar og frístunda­heimili hvetji til hjól­reiða og innleiði í daglega starf­semi sína í auknum mæli. Útbúið verði náms­efni um umferðar­reglur á hjólum og fyrir­komulag hjóla­leiða í Reykjavík og nágrenni.

Þessari aðgerð verður fylgt eftir af Umhverfis- og skipulags­sviði og Skóla- og frístunda­sviði og hjól­reið­aáætlun verður kynnt vel fyrir skóla­stjórn­endum í borginni.

Skóla- og frístunda­ráð skipaði starfs­hóp árið 2013 til að móta stefnu skóla- og frístunda­sviðs um hjól­reiðar barna og unglinga í Reykja­vík. Verkefni hópsins var að kort­leggja aðstæður til hjól­reiða í hverfum borgar­innar og móta til­lögur sem aukið gætu hjól­reiðar barna og unglinga, bætt öryggi þeirra og stuðlað að jákvæðri umræðu um hjólreiðar.

Skýrsla starfs­hópsins nefnist Ævintýri, hreysti og sjálfstæði — Stefna skóla og frístunda­sviðs um hjól­reiðar barna og unglinga. Í skýrslunni segir m.a.:

„Bílaumferð í kringum skóla er vanda­mál í Reykja­vík og hún skapar oft hættu í morgun­sárið þar sem börnum er skutlað nánast upp að dyrum í skamm­deginu, með tilheyrandi hættu fyrir önnur börn sem koma gang­andi úr öllum áttum.

Það er því hagur allra að draga úr umferð í kringum skóla, hvetja til þess að börn komi sér af eigin ramm­leik til og frá skóla og að þróa borgina enn frekar með tilliti til þess að börn og ungmenni geti farið sem mest gangandi, hjólandi og í strætó í skóla- og frístunda­starf.“

Þrjár kannanir voru gerðar, meðal starfs­manna, nemenda og foreldra. Yfir­gnæfandi meirihluti barna og unglinga í 6.-10. bekk segjast hafa aðgang að nothæfu reið­hjóli. Um 19% barna og unglinga fer oftast hjólandi í skólann og yfir 60% fer oftast gang­andi í skólann. Það þýðir að yfir 80% fer oftast gang­andi eða hjól­andi í skólann. Strákar hjóla frekar í skólann miðað við stelpur og 6.-7. bekk­ingar hjóla frekar í skólann miðað við 8.-10. bekkinga.

Svipaðar niður­stöður fengust þegar spurt var um ferðir í skipu­lagt frístunda­starf. Einnig segir í skýrslunni:

„Nýleg dönsk rann­sókn sýndi fram á að börn á aldrinum 5-19 ára sem hjóluðu eða gengu í skóla, stóðu sig betur í verk­efnum sem kröfðust einbeitingar heldur en börn sem voru keyrð eða fóru með strætó. Þessi jákvæðu áhrif entust allt að fjórum tímum eftir að þau komu í skólann.“

Í skýrslu starfshópsins er hvatningarorðum að neðan beint að sviðinu, leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og foreldrum.

Hvatning til skóla- og frístundasviðs
 • Starfsfólk SFS nýti marg­vísleg tæki­færi til að ýta undir hjól­reiðar, s.s. íþrótta- og þema­daga í skólum, innleiðingu mark­miða um heilsu­eflandi skóla- og frístunda­starf, samgöngu­viku, göngum í skólann og fleiri verk­efni yfir árið.
 • Þróaðir verði gátlistar sem starfs­staðir/hverfi geta nýtt til að meta stöðu sína gagn­vart eflingu hjól­reiða og fjöl­breyttra samgöngu­kosta meðal barna og ung­linga.
 • Þróaðir verði öryggis­verk­ferlar fyrir hjóla­ferðir barna og ung­linga í skóla- og frístunda­starfi SFS.
 • SFS er hvatt til þess að móta stefnu um útilíf barna og ungmenna þar sem ydduð eru hin jákvæðu áhrif útiveru og ævintýra utan­dyra og mikil­vægi þess fyrir þroska barna og velferð.
Hvatning til frístundamiðstöðva
 • Börnum og ung­lingum verði boðið upp á fræðslu um hjól­reiðar í frí­stundastarfi.
 • Leitast verði við að efla hjól­reiðar í skipu­lögðu frístunda­starfi með því að nota hjól sem samgöngu­tæki og búa til sérstök verk­efni tengd hjól­reiðum.
 • Börn og unglingar verði hvött til að stofna hjól­reiða­klúbba.
 • Frístunda­miðstöðvar skoði hvort hægt sé að skipta út rútu­ferðum fyrir hjóla­ferðir, t.d. í annað skipu­lagt frístunda­starf í hverfinu eða ferðir af ýmsu tagi.
 • Frístunda­akstur miðast við 1. og 2. bekk því þá eru börn að kynnast nýjum veru­leika grunn­skólans, frístunda­heimilanna og frístundum innan hverfis. En mikil­vægt er að nýta þessi ár líka til að kynna fyrir leiðir til að ferðast um hverfið sitt á fæti, í strætó og hjólandi.
 • Gæta að því að frístunda­akstur hvetji ekki til þess að börn verði meira ósjálf­bjarga.
 • Félags­miðstöðvar leiti leiða til að efla hjól­reiðar stelpna á öllum aldri og unglinga í 8. – 10. bekk, sem sýnilega hjóla minna en yngri börn.
Hvatning til grunnskóla
 • Grunnskólar bjóði börnum og unglingum upp á fræðslu um hjól­reiðar, t.d. í lífsleikni­kennslu.
 • Hjólreiðar verði mark­visst samþættar við nám barna í grunn­skólum, t.a.m. í tengslum við innleiðingu á heilsu­eflandi skóla og grunn­þáttar menntunar um heil­brigði og velferð.
 • Grunnskólar skoði hvort hægt sé að hjóla í stað þess að taka rútu, a.m.k. hluta ársins, í til dæmis skóla­sund eða í aðrar ferðir á vegum skólans sem eru ekki um langan veg.
 • Leitað verði leiða til að efla hjól­reiðar stelpna á öllum aldri, og unglinga í 8. – 10. bekk, sem sýnilega hjóla minna en yngri börn.
Hvatning til leikskóla
 • Á leikskólum fái börn tækifæri til að æfa sig að hjóla og verða örugg á hjóli.
 • Skipulagðar verði hjóla­ferðir með elstu börnin um hverfið.
 • Við innleiðingu mark­miða um heilsu­eflandi leik­skóla, sem og grunn­þáttar í aðal­námskrá um heil­brigði og velferð, verði horft til hjól­reiða sem mikil­vægs þáttar í hreyfingu og leik leik­skólabarna.
 • Stjór­nendur hvetji foreldra til að hjóla með börnum sínum í leikskólann.
Hvatning til foreldra
 • Foreldrar leyfi ungum börnum sínum að ferðast með sér á hjólum.
 • Foreldrar ættu að kenna börnum sínum að fylgja umferðar­reglum áður en börnin fá að hjóla eftir­lits­laus, t.d. í skóla- og frístundastarf.
 • Foreldrafélög standi fyrir fræðslu um eflingu hjól­reiða barna og unglinga.
 • Foreldrar hvetji börn sín til að fara lengri leiðir á hjólum, eftir því sem þau verða eldri og sjálfstæðari.

Tengingar frá skólum við hjólaleiðir
Mikilvægur liður í því að styðja við auknar hjól­reiðar barna og unglinga í og úr skóla- og frístunda­starfi er að tryggja að góðar tengingar séu frá skólum, frístunda­heimilum og félags­miðstöðvum að góðum hjólaleiðum.

Gerð verður greining á þessu við grunn­skólana. Gerð hefur verið rannsókn meðal grunn­skóla­barna í Reykjavík um ferða­máta og leið í skóla. Niðurstöður þeirrar rannsóknar nýtast við þessa greiningu.

Fjölgun þeirra
sem hjóla til vinnu

Reykjavíkur­borg starfi með aðilum vinnu­markaðarins til að fjölga þeim sem hjóla í og úr vinnu í borginni. Áhersla verði lögð á að kynna fyrir­tækjum og einstak­lingum ávinning beggja aðila af auknum hjól­reiðum og jákvæðum áhrifum samgöngusamninga.

Hluta aðgerða til að draga úr umferðar­álagi (e. Travel Demand Management eða Mobility Management) má kalla vinnu­staða­aðgerðir, aðgerðir sem hafa m.a. það mark­mið að fjölga þeim sem ferðast með öðrum, ganga eða hjóla til og frá vinnu. Sem dæmi um árangurs­ríkar aðgerðir sem vinnu­veitendur geta nýtt til að draga úr umferðar­álagi og bíla­stæða­þörf vegna starf­semi sinnar má nefna samgöngu­samninga.

Það hefur færst mjög í vöxt að fyrir­tæki bjóði starfs­mönnum sínum að gera samgöngu­samninga þar sem starf­smenn skuldbinda sig til að nota vist­væna samgöngu­máta á leið til og frá vinnu a.m.k. þrjá daga í viku og eða til ferða á vegum vinnu­veitanda. Fyrirtæki á höfuð­borgar­svæðinu sem nú bjóða starf­smönnum slíka samninga eru á annað hundrað. Oftast er starfs­manninum umbunað með einhverjum hætti s.s. mánaðar­legum greiðslum sem kallaðir hafa verið samgöngu­styrkir. Heimilt er að draga slíkar greiðslur frá skatti, í dag að hámarki samtals 7.000 kr. á mánuði, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Vinnuveitendur geta einnig hvatt starfs­fólk til aukinnar nýtingar fjar­vinnslu og fjar­funda og skipu­lagt samnýtingu bifreiða (e. Car-pool) til að draga úr umferða­rálagi. Þá getur sveigjan­legur vinnu­tími og/eða hliðrun vakta­skipta verið árangurs­rík aðgerð til að gera fólki kleyft að ferðast í og úr vinnu utan mesta annatíma í almennings­samgöngum og almennri umferð.

Reykjavíkur­borg mun kynna samgöngu­samninga og aðrar vinnu­staða­aðgerðir fyrir aðilum vinnu­markað­arins með mark­vissum hætti og nýta t.d. full­trúa­ráð ASÍ sem samvinnu­vettvang. Annað dæmi um aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla til vinnu er þát­taka í verk­efninu Hjólað í vinnuna, en Reykja­víkur­borg er einn af samstarfs­aðilum ÍSÍ í því verkefni.

Hjólum í skólann er sambærilegt verkefni í framhalds­skólum landsins, en Reykja­víkur­borg er einn af samstarfs­aðilum ÍSÍ í því verk­efni ásamt Hjóla­færni á Íslandi, Embætti Land­læknis, Samgöngu­stofu og Sambands Íslenskra fram­halds­skóla­nema. Það er verk­efni þar sem nemendur og starfs­fólk framhalds­skóla landsins keppa sín á milli um að nýta virkan ferða­máta sem oftast í og úr skóla.

Hluta aðgerða til að draga úr umferðar­álagi (e. Travel Demand Management eða Mobility Management) má kalla vinnu­staða­aðgerðir, aðgerðir sem hafa m.a. það mark­mið að fjölga þeim sem ferðast með öðrum, ganga eða hjóla til og frá vinnu. Sem dæmi um árangurs­ríkar aðgerðir sem vinnu­veitendur geta nýtt til að draga úr umferðar­álagi og bílastæða­þörf vegna starf­semi sinnar má nefna samgöngusamninga.

Litaðar lykilleiðir
og merkingar

Á tímabilinu verði lita­kort lykil­leiða í hjól­reiða­kerfinu fest í sessi í samvinnu sveitar­félaga á höfuð­borgar­svæðinu. Á helstu hjóla­stíga­mótum í kerfinu verði sett upp skilti sem vísa leiðina og taka mið af lita­merkingum lykil­leiða.

Unnin hefur verið tillaga að lita­kóðun lykil­leiða í hjól­reiða­kerfinu og merkingum fyrir hjóla­leiðir sem stefnt er á að verði innleidd í reglu­gerð um umferðar­merkingar og tekin í notkun á tíma­bilinu 2015–2020. Þær merkingar munu byggja á lita­korti á lykil­leiðum hjóla­leiða­kerfisins. Tillögur að lita­kóðun og skiltum hafa á vinnslu­stigi hjól­reiða­áætlunar verið kynntar innan­ríkis­ráðu­neyti, lögreglu og sveitar­félögum á höfuð­borgar­svæðinu. Samhliða uppsetningu nýrra skilta verða úrelt skilti tekin niður og úreltar yfirborðs­merkingar afmáðar þar sem við á.

 • Strandleið
 • Miðbær–Nauthólsvík–Fossvogur–Elliðavatn
 • Miðbær–Laugardalur–Elliðárdalur–Mosfellbær
 • Fossvogur–Kópavogur C–Garðabær C–Hafnafjörður C
 • Elliðaárdalur–Kópavogur A–Garðabær. A–Hafnafjörður C
 • Ýmsar tengileiðir

Hjól og almennings-
samgöngur

Á tíma­bilinu verði unnið mark­visst að samþættingu hjól­reiða og almennings­sam­gangna til að auðvelda farþegum almennings­sam­gangna að fara fyrsta og/eða síðasta spölinn á hjóli.

Fyrir 2020 verði komin yfir­byggð hjóla­stæði við skipti­stöðvar í Mjódd, Ártúni og Spöng. Við uppbyggingu nýrrar samgöngu­mið­stöðvar verði sérstak­lega hugað að góðri aðstöðu fyrir reiðhjól.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir:
„Hjól og strætó eru vist­vænir samgöngu­mátar sem geta vel farið saman og stutt hvor annan. Í Reykja­vík er heimilt að taka hjól um borð í strætó ef pláss er í vagninum. Mikil­vægt er að kynna þennan mögu­leika betur og skoða nánar með Strætó hvernig megi frekar stuðla að samnýtingu þessara tveggja samgöngu­máta.


Vegleg hjóla­stæði við biðstöðvar eru mikil­vægur þáttur í því. Víða erlendis er einnig hægt að leigja hjól við helstu biðstöðvar strætis­vagna og aðra mikil­væga áfanga­staði. Skoða skal þróunar­starf með Strætó bs. svo hægt verði að finna leiðir til að auðvelda hjólreiða­mönnum að nýta sér vagnana, svo sem með úrbótum á biðstöðvum eða breyttri útfærslu inni í vögnunum.“

Eftirfarandi eru atriði sem geta auðveldað fólki að samtvinna þessa tvo ferðamáta:

 1. Hjóla­stæði við stoppi­stöðvar
  Við helstu stoppi­stöðvar og stærstu skipti­stöðvar verði yfir­byggð hjólastæði.
 2. Hjóla­stíga­kerfið og stað­setning stoppi­stöðva sé samræmd
  Við hönnun hjóla­leiða verður hugað að teng­ingum við stoppi­stöðvar og að samráð fari fram milli Strætó bs. og Reykja­víkur­borgar við hönnun hjóla­leiða og stoppistöðva.
 1. Rúmt pláss innan strætis­vagna sem er ætlað hjólum, hjóla­stólum og vögnum og/eða hægt sé að festa hjól framan á vagnana.
 2. Hækkaður kantur á stoppistöðvum
  Svo að farþegar geti stigið (og reitt hjól) beint inn í og út úr vögnunum. Með uppbyggingu almennings­samgöngu­kerfisins verður hugað að því að helstu stoppi­stöðvar kerfisins verði byggðar upp með þessum hætti.

Viðhald og
vetrar­þjónusta

Gerð verði úttekt á ástandi hjóla­leiða til að meta þörf á viðhaldi. Þetta verði gert snemma á tíma­bilinu svo hægt verði að forgangs­raða fram­kvæmdum við lagfæringar á tíma­bilinu.

Vetrar­þjónusta á hjóla­leiðum verði bætt enn frekar t.d. með því að bæta snjó­mokstur á lykil­leiðum seinnipart dags.

Vetraraðstæður hér á landi eru oft erfiðar og þess vegna hefur verið lögð áhersla á góða vetrar­þjónustu á lykil­leiðum. Hjóla- og göngu­stígum er skipt í forgangs­flokka við snjó­mokstur:

 • Lagt er upp með að stígar myndi ákveðið net þannig að fólk komi aldrei að enda­stoppi, að leiðir að skólum og stofnunum séu greið­færar, að mikið notaðir stígar séu greið­færir og að tengingar milli hverfa séu greið­færar að morgni. Þarna er um að ræða stíga í for­gangi 1a og 1, sem er lokið við að hreinsa fyrir kl. 7:30 og 8:00.
 • Í forgangi 2 eru minna notaðir stígar, stígar sem ekki liggja að stofnunum eða skólum, auk stíga sem vitað er að eru notaðir mikið til útivistar. Snjó­mokstri stíga í forgangi 2 er lokið fyrir hádegi.
 • Í forgangi 3 eru fyrst og fremst stígar í húsa­götum, sem eru mokaðir í síðasta lagi 36 klst. eftir snjókomu.

Við úttekt á ástandi stíga verða þeir skoðaðir sérstak­lega með til­liti til vetrar­þjónustu, t.d. að stígar sem erfitt er að ryðja vegna þess að þeir eru ósléttir eða liggja neðar en landið í kring, verði lagfærðir. Einnig verði farið yfir hvaða aðferðir gefast best við að ryðja stíga og hvort og hvenær hálku­vörn er æskileg. Gera mætti athugun á möguleikum á snjó­bræðslu hjól­reiða­stíga með affals­vatni hitaveitu.

Mikilvægt er að við fram­kvæmdir í borginni verði viðunandi hjáleiðir fyrir hjól­andi tryggðar og lögð áhersla á merk­ingar, öryggi og þægindi fyrir gang­andi og hjól­andi á meðan fram­kvæmdir standa yfir.

Lýsing

Staðlar um lýsingu á hjól­reiða­stígum verði uppfylltir í öllu hjól­reiða­kerfinu með vandaðri lýsingu sem tekur mið af umhverfinu.

Lýsing hjóla­leiða er mikil­vægur liður í því að auka greið­færni hjóla­leiða og öryggis­tilfinningu hjólreiða­fólks. Við val á útfærslu lýsingar er mikil­vægt að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað.

Horfa skal til nýjustu tækni varðandi stýringu lýsingar og nýta þá tækni til að dimma ljósið yfir nóttina með tíma­stilltum dimman­legum spennum og/eða hreyfi­skynjurum. Það er orku­sparandi og hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið, bæði varðandi orku­notkun og ljós­mengun auk þess að lengja líftíma ljósgjafans.

Auk þess er stefnt að því að farið verði í tilrauna­verkefni á lýsingu með notkun hreyfi­skynjara á völdum kafla á stíg í jaðri borgarinnar, þar sem umferð gangandi og hjólandi er lítil á kvöldin.

Stefnt er að því að skoðaðar verði lausnir til þess að á stígum í jaðri borgarinnar, sem eru ekki samliggjandi lýstri götu, sé notuð tíma­stilling þ.a. lýsing sé dempuð yfir nóttina og að notuð verði stefnu­virk ljós frekar en dreifð.

Gott dæmi um vandaða stefnu­mörkun lýsingar má finna í Frederiks­berg í Kaupmanna­höfn (Belysnings­strategi Frederiks­berg Kommune). Þar er lögð áhersla á að finna rétta jafn­vægið milli þess að spara orku og bæta nútíma borgar­líf með öruggri og þægi­legri lýsingu.

Tækni­þróun í lýsingu er hröð og mikil tæki­færi liggja í því að fylgja vel þeirri þróun sem á sér stað og nýta nýjustu tækni til að auka nákvæmni í still­ingum og ná fram sparnaði í orku og viðhaldi.

Samstarf um
lög og reglugerðir

Með reglu­bundnu samstarfi um lög og reglu­gerðir sem viðkoma hjól­reiðum í borginni verði tryggt að aðilar séu samtaka í eflingu hjól­reiða sem samgöngu­máta.

Reykja­víkur­borg er frum­kvöðull hérlendis í mörgu sem viðkemur hjól­reiðum. Mikilvægt er að lög og reglu­gerðir taki mið af auknum hjól­reiðum, að lagaleg staða hjól­reiða­innviða sé skýr, að vel gangi að innleiða nýjar merkingar o.fl..

Búið er að koma á reglu­bundnu samstarfi Reykjavíkur­borgar við innan­ríkis­ráðuneytið og lögregluna sem ætlað er að tryggja að aðilar séu samtaka í eflingu hjólreiða.

Hjólaleigur —
deilikerfi

Á tíma­bilinu verður kannaður áhugi einka­aðila á aðstöðu á lykil­stöðum í borginni fyrir deili­hjóla­leigur (e. bike sharing). Skil­greindir verða staðir sem Reykjavíkur­borg býður undir þjónustu hjólaleiga.

Líklegt er að aðkoma borgar­yfirvalda að deili­hjóla­leigum í borginni verði fyrst og fremst fólgin í sköpun aðstöðu en sér­hæfðir aðilar sjái um upp­setningu og allan rekstur. Á Norður­löndunum eru tveir stórir aðilar með rekstur víða um lönd sem hafa sérhæft sig rekstri sem þessum. Leiga hjóla og auglýsingar standa undir fjár­magns­kostnaði og rekstri. Mark­hópurinn eru allir þeir sem ferðast um borgina, hvort sem þeir eru á leið til/frá vinnu, að sinna daglegum erindum, inn­lendir og er­lendir ferða­menn.

Stað­setningar á hjóla­leigum eru almennt í mið­borg eða í nánd mið­borgar. Mið­punktur er einatt við lestar­stöð/­sam­göngu­miðstöð. Tenging við aðra ferða­máta er mikil­væg, sérstak­lega við almennings­samgöngur.

Skil­greindir verða staðir sem Reykjavíkur­borg býður undir þjónustu hjóla­leiga og leitar eftir áhuga­sömum aðilum til að taka að sér að byggja upp og reka þær.

Vinnustaðurinn
Reykjavíkurborg

Fyrir 2018 standi öllum starfs­mönnum Reykja­víkur­borgar til boða að fá greitt fyrir að ferðast á hag­kvæman og vist­vænan hátt til og frá vinnu með undir­ritun sam­göngu­samnings.

Stefnt er að því að a.m.k. 30% starfs­manna Reykja­víkur­borgar nýti sér samgöngu­styrki til lengri eða skemmri tíma árið 2020.

Umgjörð og aðstaða á vinnu­stöðum borgarinnar fyrir reið­hjól og hjól­reiða­menn verði kynnt samhliða innleiðingu samgöngu­styrkja.

Mörg fyrir­tæki og stofnanir hafa sett sér samgöngu­stefnu og tekið upp samgöngu­samninga við starfsmenn með samgöngu­styrkjum. Tilgangurinn er að auka hlut­deild annarra ferða­máta en einka­bílsins í ferðum starfs­manna til og frá vinnu.

Þeir kostir sem þessi fyrir­tæki og stofnanir nefna helst eru meðal annars:

 • Sparnaður fyrir­tækisins í formi minni fjár­festinga í bíla­stæðum og minni veikindum starfs­manna.
 • Bætt heilsa og líðan starfs­manna.

Samgöngu­stefna Land­spítalans er eitt af mörgum góðum dæmum. Um 30% starf­smanna nýta sér samgöngu­styrki og skuld­binda sig til að ferðast til og frá vinnu með vist­vænum hætti í 60% til­vika, og árangurinn er sá að minna álag er á bíla­stæðin, 82% þeirra starfs­manna sem eru á samgöngu­styrk telja að hann hafi góð áhrif á heilsu og líðan sína og 52% segjast hafa breytt ferða­venjum sínum með tilkomu styrkjanna eða um 750 manns.

Vistvæn sam­göngu­stefna í rekstri borgar­innar var sett fram árið 2009 með þau megin­markmið að auka hlut­fall vist­vænna ferða vegna starf­semi borgar­innar og draga ár­lega úr bíla­umferð á vegum borgar­innar.

Árið 2013 og nú 2015 hafa verið gerðar kannanir til að meta hver um­gjörð fyrir vist­væna samgöngu­máta er á vinnu­stöðum borgar­innar og hvernig staðið væri að því að hvetja starfs­fólk til að nýta sér vist­væna ferða­máta. Í könnuninni nú 2015, sem gerð var í febrúar og mars, kom fram að 12,4% starfs­manna hjóluðu einhvern tímann til vinnu á síðustu 30 dögum, þar af 3,2% nær daglega.

 • Er hjól í boði fyrir starfs­menn á vinnutíma?

 • Eru hjóla­grindur til staðar?

 • Er aðstaða til að geyma hjól inni eða skýli fyrir hjól?

 • Er aðstaða til að skipta um föt í boði fyrir þá sem eru hjól­andi eða gang­andi

 • Er sturta til staðar?

 • Er strætó bið­skýli til staðar?

 • Eru bílar á vinnu­staðnum?

 • Eru bílas­tæði fyrir vist­hæfa bíla?

Nei

Niðurstaða könnunar á vinnustöðum Reykjavíkurborgar árið 2013.