Inngangur

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var hleypt af stokkunum árið 2010 með útgáfu á ritinu Hjóla­borgin Reykj­avík. Sú áætlun hefur skilað mark­verðum árangri.

Borgar­stjórn Reykja­víkur sam­þykkti þann 7. október 2014 að skipa starfs­hóp til að endur­skoða hjól­reiða­áætlun borgarinnar. Hlutverk hópsins var að endur­skoða áætlunina frá 2010 með það að markmiði að fara yfir fyrir­liggjandi fram­kvæmda­áætlanir og gera aðgerð­aáætlun til að fylgja þessum árangri eftir og gera hjól­reiðum enn hærra undir höfði í Reykja­vík.

Ávarp borgarstjóra

Hjólandi Reykjavík
Fjölbreyttar sam­göngur eru mikil­vægari í dag en þær hafa nokkurn tímann verið. Samgöngu­mátar á Íslandi eru fjöl­breyttir og er það sveitar­félaganna og ríkisins að hvetja til þess að fólk ferðist í auknum mæli í strætó, gangandi – eða hjólandi. Hjól­reiðar eru öðrum þræði umhverfismál en líka lýð­heilsu­mál. Það er því best fyrir alla ef sem flestir hjóla.

Hjól­reiða­áætlun var fyrst samþykkt í borgar­stjórn 2. febrúar árið 2010 með atkvæðum allra borgarfulltrúa. Hún er afrakstur mikillar vinnu allra flokka, starfsfólks umhverfis- og skipulags­sviðs og síðast en ekki síst tals­manna og samtaka hjólreiða­fólks. Tímamóta­samstarf hefur líka tekist við Vegagerðina varðandi kostnaðar­hlutdeild ríkisins í stofnstígum. Síðan hjólreiða­áætlun var samþykkt hefur verið unnið eftir henni með fjölgun hjólastíga, betri merkingum og öðru því sem miðar að því að auka hjólreiðar í Reykjavík. Í endurskoðaðri hjólreiða­áætlun sem hér er sett fram og gildir til ársins 2020 eru nokkur einföld mælanleg markmið. Það helsta er að hlutdeild hjólandi og gangandi árið 2020 verði a.m.k. 26% af öllum samgöngum og að hlutfall hjólaleiða af heildar stíga­kerfinu sem eru aðgreindar frá bílum og gangandi verði 8%. Jafnframt verði árið 2020 hjólastæði, bæði hefðbundin og yfirbyggð við alla grunnskóla borgarinnar.

Að auki stefnum við að þó nokkurri lagningu hjóla­stíga m.a. í Ártúns­holti, á Sund­lauga­vegi, Snorra­braut, Suður­götu, Háaleitis­braut, Grensás­vegi, Geirs­götu og Mýrar­götu. Meðfram Bústaða­vegi, Kringlu­mýrar­braut, Miklubraut, Hringbraut og Suðurlandsbraut. Sem sagt, meðfram helstu umferðaræðum og á stærsta atvinnusvæði borgarinnar. Að auki verður gert ráð fyrir hjólastígum við hönnun allra nýrra gatna á nýjum uppbygginga­svæðum og verður þá horft til þess að allir samgöngu­mátar fái sitt pláss, strætó, bílar, hjólreiða­fólk og gangandi vegfarendur.

Það er mikil­vægt að búið sé að endurs­koða Hjól­reiða­áætlun Reykja­víkur­borgar. Þetta hefur verið ómetan­legur leiðar­vísir í eflingu hjól­reiða og uppbyggingu hjól­reiða­innviða – og þótti nokkuð rót­tæk árið 2010 þegar hún var samþykkt fyrst. Nú höfum við skýrt markmiðin og aðgerðar­áætlanirnar enn frekar þannig að Reykjavík verði fyrsta flokks hjólaborg. Undanfarin ár hefur nefnilega átt sér stað fremur hljóðlát bylting hjólreiða. Nú þegar eru um 9000 manns sem hjóla til og frá vinnu alla daga ársins og rétt tæplega 57 þúsund Reykvíkingar sem stunda hjólreiðar reglulega. Þessar tölur hafa verið að hækka hratt síðustu ár, og nú ætlum við að gera ennþá betur.

Starfs­hópurinn

Í starfs­hópnum sátu Hjálmar Sveinsson (formaður), Magnea Guðmunds­dóttir, Sóley Tómas­dóttir, Áslaug María Friðriks­dóttir, Sigurður Ingi Jónsson og Þórgnýr Thoroddsen.

Með hópnum störfuðu Björg Helga­dóttir, Hildur Gunnlaugs­dóttir, Ólafur Bjarnason og Kristinn J. Eysteinsson (verkefnis­stjóri), starfsmenn á Umhverfis- og skipulags­sviði. Ólöf Kristjáns­dóttir og Þorsteinn R. Hermannsson ásamt fleiri starfs­mönnum Mannvits komu einnig að gerð áætlunarinnar.

Helstu verkefni starfshópsins skv. erindisbréfi

  • Beina enn frekar sjónum að aðstæðum til að nota hjól til ferða til og frá skóla, kort­leggja aðstöðu fyrir hjól­reiða­fólk í og við skóla­byggingar og gera til­lögur til úrbóta.

  • Gera átak til að kynna mögu­leika borgar­búa á hjól­reiðum sem samgöngu­valkosti.

  • Fjölga hjóla­stæðum, hjóla­merkingum og bæta við sýnileika­aðgerðum svo sem skiltum við hjólastíga.

  • Fjalla um stöðu og sýni­leika hjólreiða í stjórn­kerfinu.

  • Skilgreina aðgerðir til að fá atvinnu­lífið og stóra vinnu­staði í lið með borginni með því að hvetja starfs­menn og stjórn­endur til að hjóla til og frá vinnu.

  • Samhliða endur­skoðuninni verði lagt mat á stöðu hjól­reiða sem sam­göngu­máta og skil­greind mælan­leg markmið sem fylgt verði eftir á eins til tveggja ára fresti.

Markmið

Í samræmi við stefnu Reykjavíkur­borgar um að efla vistvæna ferða­máta er það megin­markmið Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 að auka hlut­deild hjól­reiða í öllum ferðum í borginni. Aukin hlut­deild hjól­reiða er hag­kvæm, hefur góð áhrif á umhverfi, lýð­heilsu og lífs­gæði og skapar betri borg.

Forsenda fyrir aukinni hlut­deild hjól­reiða í Reykja­vík er góð aðstaða. Hún skal vera þannig úr garði gerð að hún hvetji borgar­búa til að sinna erindum sínum á reið­hjólum jafn­framt því að njóta útivistar. Þannig séu hjól­reiðar raun­hæfur og ákjósan­legur val­kostur og gefi mögu­leika á fjöl­breytni í ferða­máta­vali fólks eftir aðstæðum hverju sinni. Hjól­reiða­kerfið skal byggt upp af vönduðum lausnum sem taka mið af bestu fáan­legu þekkingu og taka mið af fjöl­breyti­leika fólks sem hjólar og tilgangi hjól­reiða.

Með Hjól­reiða­áætlun 2015–2020 er sett fram heildar­sýn um hjól­reiðar í Reykja­vík næstu árin og aðgerða­áætlun. Með fram­fylgd Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 verður haldið áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjól­reiða þannig að Reykja­vík verði góð hjóla­borg.

Ásamt því verður farið í fjöl­breyttar aðgerðir aðrar en fram­kvæmdir sem kalla má mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla. Sem dæmi má nefna aðgerðir 3 og 4 sem snúast um auknar hjól­reiðar barna og ung­linga og fjölgun þeirra sem hjóla til vinnu. Gera þarf ráð fyrir að a.m.k. 1,5% af árlegu fjár­magni Reykja­víkur­borgar sem í fjár­hags­áætlun er eyrna­merkt í göngu- og hjóla­stíga, hjól­reiða­áætlun, hjóla­standa, hjóla­skýli o.fl. verði varið í þessar mjúku aðgerðir.

Til að vinna að mark­miði um aukna hlut­deild hjól­reiða eru sett eftir­farandi mælanleg undir­markmið sem notuð verða til að meta fram­vindu.

Fram­vinda og staða aðgerða í áætluninni verður kynnt árlega í umhverfis- og skipulags­ráði og borgar­ráði m.a. til að tryggja sam­þættingu hennar við aðra stefnu­mótun borgarinnar.