Markmið

Í samræmi við stefnu Reykjavíkur­borgar um að efla vistvæna ferða­máta er það megin­markmið Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 að auka hlut­deild hjól­reiða í öllum ferðum í borginni. Aukin hlut­deild hjól­reiða er hag­kvæm, hefur góð áhrif á umhverfi, lýð­heilsu og lífs­gæði og skapar betri borg.

Forsenda fyrir aukinni hlut­deild hjól­reiða í Reykja­vík er góð aðstaða. Hún skal vera þannig úr garði gerð að hún hvetji borgar­búa til að sinna erindum sínum á reið­hjólum jafn­framt því að njóta útivistar. Þannig séu hjól­reiðar raun­hæfur og ákjósan­legur val­kostur og gefi mögu­leika á fjöl­breytni í ferða­máta­vali fólks eftir aðstæðum hverju sinni. Hjól­reiða­kerfið skal byggt upp af vönduðum lausnum sem taka mið af bestu fáan­legu þekkingu og taka mið af fjöl­breyti­leika fólks sem hjólar og tilgangi hjól­reiða.

Með Hjól­reiða­áætlun 2015–2020 er sett fram heildar­sýn um hjól­reiðar í Reykja­vík næstu árin og aðgerða­áætlun. Með fram­fylgd Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 verður haldið áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjól­reiða þannig að Reykja­vík verði góð hjóla­borg.

Ásamt því verður farið í fjöl­breyttar aðgerðir aðrar en fram­kvæmdir sem kalla má mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla. Sem dæmi má nefna aðgerðir 3 og 4 sem snúast um auknar hjól­reiðar barna og ung­linga og fjölgun þeirra sem hjóla til vinnu. Gera þarf ráð fyrir að a.m.k. 1,5% af árlegu fjár­magni Reykja­víkur­borgar sem í fjár­hags­áætlun er eyrna­merkt í göngu- og hjóla­stíga, hjól­reiða­áætlun, hjóla­standa, hjóla­skýli o.fl. verði varið í þessar mjúku aðgerðir.

Til að vinna að mark­miði um aukna hlut­deild hjól­reiða eru sett eftir­farandi mælanleg undir­markmið sem notuð verða til að meta fram­vindu.

Fram­vinda og staða aðgerða í áætluninni verður kynnt árlega í umhverfis- og skipulags­ráði og borgar­ráði m.a. til að tryggja sam­þættingu hennar við aðra stefnu­mótun borgarinnar.

Mælanleg markmið

1. Hærri hlutdeild hjól­andi og gang­andi
Hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykja­vík í dag er 5,5% samkvæmt ferða­venju­könnun sem gerð var í Reykja­vík í október og nóvember árið 2014. Í úrtakinu voru tæplega 8 þús. íbúar Reykjavíkur á aldrinum 6-80 ára. Hlutdeild hjólandi og gangandi var samtals 23,5% í sömu könnun. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru sett fram þau markmið að árið 2030 verði hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykjavík a.m.k. 8% og að hlutdeild hjólandi og gangandi verði a.m.k. 30% árið 2030.

Í samræmi við þessi mark­mið og árangur síðustu ára er hér sett fram mark­mið hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 um hlut­deild hjól­andi annars vegar og hlut­deild hjól­andi og gang­andi hins vegar sem mæld verður með sambæri­legri ferða­venju­könnun. Auk þeirrar könnunar verður fjöldi hjólreiða­manna á ákveðnum stöðum í borginni talinn fjórum sinnum á ári til að meta fjölda sem hjólar á hverjum árstíma fyrir sig. Þannig verður hægt að setja frekari undir­markmið.

* Tölur frá ferða­venju­könnun í Reykja­vík frá 2014.

Mælanleg markmið

2. Fleiri aðskildir hjólastígar
Það eru margar leiðir til að fjölga þeim sem hjóla og auka öryggi þeirra. Aðgreining hjóla­leiða frá bílum og gangandi er ein þeirra en það er háð aðstæðum hvort aðgreining sé besta lausnin. Heildar­lengd göngu­stíga, hjóla­stíga og blandaðra stíga (gang­stéttir ekki taldar með) í Reykj­avík er tæplega 400 km í dag, þar af eru sérstakir hjóla­stígar um 17 km. Hlutfall hjóla­stíga þar sem umferð hjólandi er aðgreind frá gangandi og akandi umferð er því tæplega 4,5% í dag.

Markmið er að hlut­fall hjóla­leiða af heildar stíga­kerfinu sem eru aðgreindar frá bílum og gangandi verði 6% árið 2017 og 8% árið 2020.

Hlutfall hjólaleiða af heildarstígakerfi sem eru aðgreindar frá annari umferð

Mælanleg markmið

3. Hjólastæði við alla grunnskóla
Eitt af mark­miðum Aðal­skipu­lags Reykja­víkur 2010–2030 er að árið 2030 verði hjóla­stæði við alla grunn­skóla fyrir 20% af nemendum og starfs­fólki og að helmingur þeirra verði yfir­byggð.

Til að ná þessu mark­miði þarf heildar­fjöldi hjóla­stæða við grunn­skóla nánast að tvöfaldast. Nú þegar uppfylla 5 skólar þetta markmið, 17 skólar eru með hjóla­stæði fyrir rúmlega 10% nemenda og starfs­fólks, en við 15 skóla eru færri hjólastæði.

* Meðal­tal yfir alla grunns­kóla í Reykja­vík.

Mælanleg markmið

4. Hjól­reiðar verði ekki ferða­máti einsleits hóps
Ferða­venju­kannanir síðustu ára sýna að það eru frekar karl­menn en konur sem nota hjól sem samgöngu­tæki í Reykjavík. Reykja­víkur­borg þarf að vinna að því að hjól­reiðar verði ekki ferða­máti einsleits hóps. Mikil­vægt er að skapa hjól­reiðum þannig umhverfi að allir telji ákjósan­legt að fara ferða sinna hjól­andi, óháð kyni og aldri.

Gerð verður könnun á öryggis­tilfinningu og við­horfi fólks til hjól­reiða á árinu 2017 og stefnt að já­kvæðri þróun á báðum þáttum í könnun árið 2020.

  • 1. Hærri hlutdeild hjólandi og gangandi

  • 2. Fleiri aðskildir hjólastígar

  • 3. Hjólastæði við alla grunnskóla

  • 4. Hjólreiðar verði ekki ferðamáti einsleits hóps

Þessum fjórum mælan­legu mark­miðum verður náð með heild­stæðri áætlun um uppbyggingu hjól­reiða­kerfisins í borginni. Áætlun sem byggir á vönduðum viðmiðum um hjóla­leiðir og aðstöðu og fjöl­breyttri aðgerða­áætlun.

↓ Sjá nánar í næsta kafla

Framkvæmdir
og aðgerðir

Haldið verður áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjól­reiða þannig að Reykja­vík verði góð hjóla­borg. Áfram­haldandi uppbygging verður á hjóla­leiðum og hjóla­stæðum ásamt því að farið verður í fjöl­breyttar, mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla.

Við nánari útfærslu fram­kvæmda og forgangs­röðun þeirra verður lögð áhersla á samráð við íbúa og hagsmuna­aðila eins og samtök hjól­reiða­manna og fleiri. Í þessum kafla eru settar fram þær aðgerðir sem Reykja­víkur­borg vill að komi til fram­kvæmda á tíma­bilinu 2015–2020. Fram­kvæmda­áætlun er endur­skoðuð á 3 ára fresti.