Í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla vistvæna ferðamáta er það meginmarkmið Hjólreiðaáætlunar 2015–2020 að auka hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í borginni. Aukin hlutdeild hjólreiða er hagkvæm, hefur góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífsgæði og skapar betri borg.
Forsenda fyrir aukinni hlutdeild hjólreiða í Reykjavík er góð aðstaða. Hún skal vera þannig úr garði gerð að hún hvetji borgarbúa til að sinna erindum sínum á reiðhjólum jafnframt því að njóta útivistar. Þannig séu hjólreiðar raunhæfur og ákjósanlegur valkostur og gefi möguleika á fjölbreytni í ferðamátavali fólks eftir aðstæðum hverju sinni. Hjólreiðakerfið skal byggt upp af vönduðum lausnum sem taka mið af bestu fáanlegu þekkingu og taka mið af fjölbreytileika fólks sem hjólar og tilgangi hjólreiða.
Með Hjólreiðaáætlun 2015–2020 er sett fram heildarsýn um hjólreiðar í Reykjavík næstu árin og aðgerðaáætlun. Með framfylgd Hjólreiðaáætlunar 2015–2020 verður haldið áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjólreiða þannig að Reykjavík verði góð hjólaborg.
Ásamt því verður farið í fjölbreyttar aðgerðir aðrar en framkvæmdir sem kalla má mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla. Sem dæmi má nefna aðgerðir 3 og 4 sem snúast um auknar hjólreiðar barna og unglinga og fjölgun þeirra sem hjóla til vinnu. Gera þarf ráð fyrir að a.m.k. 1,5% af árlegu fjármagni Reykjavíkurborgar sem í fjárhagsáætlun er eyrnamerkt í göngu- og hjólastíga, hjólreiðaáætlun, hjólastanda, hjólaskýli o.fl. verði varið í þessar mjúku aðgerðir.
Til að vinna að markmiði um aukna hlutdeild hjólreiða eru sett eftirfarandi mælanleg undirmarkmið sem notuð verða til að meta framvindu.
Framvinda og staða aðgerða í áætluninni verður kynnt árlega í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði m.a. til að tryggja samþættingu hennar við aðra stefnumótun borgarinnar.